Fiskidagurinn mikli- brauðsala

Að venju hafa félagar í Slysavarnadeildinni Dalvík selt ástarpunga, kleinur og soðið brauð á tjaldstæðinu á Dalvík í tengslum við Fiskidaginn mikla. Við seljum alltaf á sama tíma kl. 11:00 á fimmtudeginum. Margir taka okkur fagnandi og segja oft að þeir hafa beðið komu okkar. Ekki slæmar móttökur það!

Félagar deildarinnar hittust tvívegis og steiktu brauðið. Að þessu sinni styrkti Brauðgerð Kristjáns Jónssonar okkur um steikingarfeitina, en af henni fer töluvert í það magn sm við steikjum. Við þökkum þeim stuðninginn.

Nokkrir félagar okkar standa í stórræðum fyrir Fiskidaginn þar sem margir gestir eru væntalegir. Þeir steikja kleinur, punga og soðið brauð fyrir eigin gesti og gefa svo deildinni nokkra poka til að selja. Við þökkum það. Alveg magnað hve margt smátt gerir eitt stórt.

Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð. Við biðjum fólk að fara varlega. Allir vilja slysalausa helgi.

Unglinga á ekki að senda eina á svona hátíð. Fjölskyldan á  að eyða helginni saman. Drykkja unglinga á ekki við á þessari hátíð frekar en öðrum. Fari svo illa að einhver verður ofurölvi og þarf aðstoð, veittu hana eða kallaðu í gæsluaðila. Skiljum aldrei of drukkið fólk eftir aleitt.

Við óskum gestum hátíðarinnar alls hins besta. Takk fyrir stuðninginn þið sem keyptuð af sölufólki okkar.

Njótið helgarinnar.

Athugasemdir