Slysavarnadeildin Dalvík 85 ára

Þessi pistill birtist í bæjarblaðinu í tilefni af 85 ára afmæli deildarinnar í gær.

 

Árið 1934 var Egill Júlíusson kjörin formaður deildarinnar og gegndi því embætti í 26 ár. Eitt fyrsta verk hans sem formanns var að stofna kvennadeild. Því hefur verið haldið fram að Egill hafi biðlað til kvenna um að gerast stofnfélagar og árangurinn varð eins og segir í fyrstu fundargerð: „Ár 1934 dag 21.-5 var stofnfundur kvennadeildar í Slysavarnafélagi Íslands settur.“  Stofnfélagar voru 72 og hlaut deildin nafnið ,,Kvennasveit  Dalvíkur“ sem síðar varð „Slysavarnadeild kvenna Dalvík.“ Árið 2011 var nafninu breytt í ,,Slysavarnadeildin Dalvík“ því nauðsynlegt þykir að kyngreina ekki deildina þar sem hún er öllum opin.

Mikið vatn er runnið til sjávar frá því að deildin var stofnuð. Verkefnin hafa breyst og endurspegla það sem gerist í samfélaginu hverju sinni. Fyrir áratugum voru það sjóslys og björgunarbátar sem voru efst á baugi. Fatnaður handa sjómönnum. Sundkennsla barna. Flugvöllur og rekstur hans. Í dag er það umferðin, snjallsímar undir stýri og ferðamennirnir.

Börnin hafa alltaf átt stað í hjarta þeirra sem vinna að slysavörnum og hafa börn í Dalvíkurbyggð notið á margan hátt. Börnin fá gjafir frá deildinni sem miðar að slysavörnum, s.s. eyrnaskjól, endurskinsvesti og merki, reykskynjari og njóta af þeim gjöfum sem deildin gefur félögum sem starfa í byggðarlaginu. Björgunarvesti fyrir börn eru á bryggjunni sem þau mega/eiga að nota þegar þau eru á og við bryggjuna.

Starf okkar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg er fastur liður, s.s. á fulltrúaráðsfundir, þingi, formannafundir og landsmóti slysavarnadeilda. Í ár eru liðin 20 ár frá stofnun Landsbjargar sem sameinaði öllu björgunarfélög á landinu. Framfararskref. Þór þorsteinsson tók við formennsku af Smára Sigurðssyni á nýafstöðnu þingi samtakanna.

Lengi má telja upp verkefni sem Slysavarnadeild kvenna á Dalvík lét sig varða í gegnum tíðina. Hugsjón og sjálfboðin vinna dreif konurnar áfram. Starfið var farsælt og má það þakka áhugasömum konum sem höfðu áhuga á velferð, slysavarnamálum og forvörnum landsmanna og ekki síst eigin fólki.

Staðan hefur ekkert breyst, enn þarf Slysavarnadeildin Dalvík á áhugasömu hugsjónarfólki að halda. Sjálfboðin vinna er það sem drífur starf deildarinnar áfram og án sjálfboðaliða væri deildin ekki svipur hjá sjón. Fjáraflanir leika stórt hlutverk í starfsemi deildarinnar og í því samhengi má nefna fastan lið, Sjómannadagskaffið sem verður 2. júní í ár.

Slysavarnadeildin þakkar öllum sem hafa stutt okkur í gegnum árin á einn eða annan hátt.

F.h. stjórnar

Helga Dögg Sverrisdóttir, formaður

Athugasemdir